Bilanir og virkni

Hvernig vinnur rafhitari

Rafhitari er eins og nafnið bendir til hitatæki sem hitar vatn eða vökva, í þessu tilfelli hitar hann frostlagarblöndu eða vatn í lokuðu eða opnu hitakerfi , sem er annaðhvort uppbyggt með ofnum eða gólfhitalögnum.

Vökvinn hringrásar með hjálp dælu í gegnum rafhitarann og áfram í gegnum ofna eða gólflagnir og síðan aftur inn á rafhitarann. Í þessari stöðugu hringrás hita element (hitöld) í rafhitaranum vökvann upp og viðhalda völdu framrásarhitastigi sem oftast liggur í kringum 60°C fyrir ofnakerfi en frá 25-45°C í gólflagnakerfum en þar ákvarðast framrásar hitinn af stærð gólflagnanna, því lengri sem hver motta er því heitara þarf framrásar hitinn að vera til þess að ná að hita upp rýmið. En taka þarf tillit til gólfefna, niðurlímt parket má ekki hita meira en 38°C að sögn framleiðanda. En öruggast er að leita upplýsinga hverju sinni hjá söluaðila gólfefna.

Hitastiginu er stjórnað af hitastilli sem þreifar eftir vatnshitanum innan í rafhitaranum. Auk þess er annar hitastillir sem kallast yfirhitavar, sem rýfur strauminn að hitöldum (elementum) við bilun ef hitastig vatnsins fer yfir ákveðin mörk. Þrýstiloki er á neysluvatnslögninni, ef yfirþrýsingur myndast í kerfinu vegna bilunar opnar hann og hleypir vatni niður í frárennsli þar til þrýstingur er aftur orðin eðlilegur.

Til þess að tryggja bestu nýtni hitarans er ráðlagt að vera með framhjáhlaup sem tryggir stöðuga hringrás í rafhitaranum þó allir lokar hitakerfisins hafi lokað, þetta á sérstaklega við um rafhitara með innbygðum neysluvatnsspíral, auk þess eykur þetta endingu dælunnar.

Óhljóð í rafhitara

Allir minni rafhitarar sem Rafhitun framleiðir í dag eru búnir rafeindaliðum, sem gerir rafhitarann hljóðlausan.

Það er því aðeins þegar straumur er settur á, að það heyrist einn smellur við það að höfuðrofi kemur inn.

Eftir það á rafhitarinn að vera hljóðlaus.

Stundum heyrist bank í rafhitaranum, það kemur til af því að loft er á kerfinu og þegar loftbólur koma á heit elementin heyrist smá bank.

Til þess að losna við þetta þarf kerfið að vera útbúið loftskilju sem er staðsett á undan dælunni á kerfinu.

Ath. loftskilju ekki loftventil.

Þrýstingur á kerfinu þarf að vera minnst 2 bar(kg) til þess að auðvelda loftskiljunni að vinna loftið úr vökvanum.

Fljótlega eftir áfyllingu t.d. innan viku þarf að athuga hvort þrýstingur hafi fallið við loftlosun og bæta aftur á kerfið. Þetta getur þurft að gera nokkrum sinnum þar til allt loft er farið af kerfinu.

Vatn eða frostlögur?

Hvort á að nota vatn eða frostlög á kerfið.

Tvímælalaust skal nota frostlagarblöndu (Glycol) ca. 30%. Frostlögurinn gegnir tvíþættu hlutverki. Annarsvegar er hann vörn fyrir frostskemmdum og hinsvegar eykur glycol Ph gildi vatnsins og minnkar þannig verulega hættu á tæringu. Auk þess er í frostlegi fyrir hitakerfi vörn gegn lífrænni myndun í kerfinu.

© Rafhitun, Kaplahraun 19, 220 Hafnafjörður | Sími (354) 565-3265